Skip to main content

Glamour Iceland - Be Yourself ExhibitionMaðurinn sem lifir sem list


Daniel Lismore er listamaður, fatahönnuður, stílisti, rithöfundur og baráttumaður, búsettur í London. Hann hefur verið nefndur sem sérviskulegasti klæddi maður Englands, og segist lifa sem list. Hann er þekktur fyrir íburðamikinn klæðnað, sem sameinar hátísku, hans eigin hönnun, notuð efni, fundna hluti, hringjabrynjur og skartgripi ólíkra menningarhópa. Daniel vinnur hörðum höndum við að setja upp listasýninguna „Be Yourself, Everyone Else is Already Taken“ í Hörpu. Listamaðurinn hefur skapað skúlptúra í fullri stærð, og er hver og einn skreyttur alklæðnaði sem Daniel hefur sjálfur klæðst á þýðingarmiklum augnablikum í lífi sínu.

Við hittum Daniel Lismore í Hörpu, þar sem hann heldur á stórum marglituðum kjól, þöktum fjöðrum sem allar voru handsaumaðar í efnið. „Eins og þau gera hjá Chanel,“ segir hann. Daniel er hávaxinn og klæðist svörtum kjól og köflóttri kápu, og hefur vafið síðu hári sínu inn í höfuðklút. Hann er einlægur, kurteis, fjörugur og hreinskilinn, og talar um sýningu sína af mikilli ástríðu. Daniel gengur með okkur um sýninguna, og segir okkur sögur af hlutunum fatnaðinum og lífi sínu.
Ævintýrið hófst fyrir þremur árum, þegar hann vissi ekki hvað hann ætti að gera við líf sitt. Daniel var þá að kveðja fatamerki sitt, var í partíi með Vogue og var nýbúin að klæða Mariah Carey. Þar hugsaði hann, hvað er næst? „Ég hringdi í mömmu og sagði, þú munt ekki heyra í mér í nokkra daga, en engar áhyggjur, það er allt í lagi. Þremur dögum seinna fékk ég þá hugmynd að gera listasýningu með öllum mínum fatnaði. Ég ákvað að gera líf mitt í textíl, og ég lifi sem list og hef klæðst þessu öllu áður.“ Daniel skapar skúlptúra í fullri stærð, þar sem innblásturinn kom frá barnæsku hans, lífi og kínverskra leirhermanna.
Myndir/Rakel Tómasdóttir
Fyrsta sýning hans var í samvinnu við SCAD: Savannah College of Art and Design í Atlanta. Síðan þá hefur hann sýnt í á Miami Art Basel, og heldur til Rómar eftir sýningu sína í Hörpu. Daniel gengur með okkur í gegnum sýninguna og segir okkur frá hverjum skúlptúr fyrir sig. Yfir fjögurþúsund hlutir eru í sýningunni, og Daniel veit upp á hár hvaðan þeir koma. Þarna eru hlutir, kórónur og fatnaður frá mismunandi menningarheimum, nýir og mjög gamlir, en einnig hlutir sem stjörnur á borð við Nicki Minaj, Mariah Carey og Naomi Campbell hafa klæðst. Þarna er fatnaður frá McQueen, Yves Saint Laurent hátíska frá 1973, Katherine Hamnett, fatnaður sem hann hefur sjálfur hannað og bróderað, H&M og Primark.
Daniel sýnir okkur hálsmen frá Maasaii-ættbálknum í Afríku, og segir frá því þegar hann bjó með þeim í nokkurn tíma. „Þeir kenndu mér að sníða og draga í efni.“
Af fjölmörgum skúlptúrum er erfitt að velja sinn uppáhalds, en Daniel taldi þetta vera sitt uppáhald. Ástæðan fyrir því er að hálsmenin koma frá Maasai-ættbálknum í Afríku, en með þeim eyddi hann löngum tíma.
En hvað er það sem hann vill segja með sýningunni? „Ég veit að fólk kemur hérna inn og segir, hvað er þetta, er þetta alvöru manneskja? En þetta er alvöru manneskja, þetta er hvernig ég lifi mínu lífi. Þetta eru minjar frá mínu lífi, sem skúlptúrar. Það sem ég vill segja við fólk, að þú getur orðið allt sem þú vilt vera, svo lengi sem þú leggur hart að þér. Ég er orðinn þetta, en ég hef þurft að halda aftur af mér í svo langan tíma. Það eru svo mörg nei sem ég hef fengið. En það eru svo margir sem hafa stutt við bakið á mér, Edward Enninful, Hamish Bowles, David LaChapelle til dæmis.“
Daniel hóf ferilinn sem fyrirsæta, sautján ára í London. „Ég mátti ekki vera fyrirsæta og vera samkynhneigður, þannig ég faldi það hver ég var í svo langan tíma. Ég setti á mig grímu þegar ég fór út að skemmta mér svo að fólk myndi ekki þekkja mig.“ Svo talar hann um hve mikið hefur breyst, fjölbreytni sé núna „í tísku“, og mun meiri umburðarlyndi. 
Daniel sameinar hér tísku- og listaheiminn, og segist vera að færa sig lengra og lengra inn í listina. „En listaheimurinn er stundum kolruglaður, fólk setur verðmiða á allt. Ég fæ svo marga sem vilja kaupa listina mína, en ég myndi aldrei selja þetta nema allt í einu. Og þá yrði það mjög dýrt. Fólk í dag veit verðmiðann á öllu en viðurkennir ekki gildi hlutanna.“
Umhverfismál og endurnýting í tískuheiminum er mál sem honum er hugfangið, og hefur unnið mikið með Vivienne Westwood í tengslum við það. „Ég veit ég er neytandi, örugglega verstur af þeim öllum. En ég hendi engu, og endurnýti allt.“
„Tískuheimurinn getur líka farið með þig á dimman stað. Þú færð mörg nei og trúir ekki að þú komist áfram, þú ert inn eina mínútuna en úti þá næstu,“ segir Daniel um tískuheiminn, en hans ást á fatnaði heldur honum í hringiðu tískunnar. Nú fær hann mörg tækifæri, þar sem stór tískuhús vilja fá hann með sér í samstarf, en hann velur verkefnin sín vel. Hann segist vera kominn á þann stað, að vera svo heppinn að geta sagt nei.
Að lokum gefur Daniel ungu fólki ráð, fólki sem er hrætt við að láta sinn raunverulega persónuleika í ljós. „Opnaðu þig, þú verður að komast yfir þetta. Þú verður að komast yfir sjálfan þig. Boy George sagði þetta við mig þegar ég var nýbúin að segja honum öll mín vandamál, og ég móðgaðist alveg hryllilega. Hann sagði get over yourself, og það var besta ráð sem ég hef nokkurntímann fengið.“
Sýning Daniel Lismore opnar þann 2. júní í Hörpu, og stendur sýningin til 17. júní. Miðaverð er 1.500 krónur, en við mælum með sýningunni fyrir alla þá sem hafa áhuga á list, tísku, menningu og arkitektúr.
„Ætti ég að vefja mig inn í blöðruplast? Ég ætla að vefja mér inn í blöðruplast. Taktu mynd.“
Síða hálsmenið er gríðarlega verðmætt og gildishlaðið, en það er ævafornt frá Kína.

https://glamour.frettabladid.is/2018/06/01/madurinn-sem-lifir-sem-list/